Skip to main content
RSF

Gæðamat

Vinnureglur fiskmarkaða tengdum uppboðskerfi RSF

Vinnureglur þessar gilda almennt um viðskipti á öllum fiskmörkuðum tengdum uppboðskerfi Reiknistofu fiskmarkaða. Ef gæðakerfi einstakra fiskmarkað kveða á um ítarlegri reglur við athugasemdum þá gilda þær, enda séu þær birtar á heimasíðu viðkomandi fiskmarkaðs.

Mat:

Gæði fisks sem boðin er upp á fiskmarkaði helgast af mörgum þáttum. Starfsmenn fiskmarkaða beita skynmati þar sem lagt er mat á ytra útlit, hitastig og frágang. Ekki er lagt mat á aðra gæðaþætti svo sem los, orm, flakanýtingu eða annað það sem ekki kemur fram við ytra gæðamat. Ef eitthvað óeðlilegt kemur fram við ytra gæðamat þá er þeim upplýsingum komið á framfæri við kaupendur í uppboðslýsingu.

Upplýsingagjöf:

Þær upplýsingar sem starfsmenn fiskmarkaða eiga kosta á að koma á framfæri við kaupendur í stæðulýsingu eru eftirfarandi:

  • Seljandi
  • Löndunarhöfn
  • Markaður
  • Löndunartími
  • Veiðarfæriv
  • Fisktegund
  • Ástand
  • Stærð
  • Aldur
  • Frágangur
  • Hitastig
  • Gerð og fjöldi eininga
  • Magn
  • Athugasemdir

  • Saman mynda þessar upplýsingar grunn að því boði sem kaupandi gerir í viðkomandi stæðu.

    Athugasemdir frá kaupanda:

    Standist fiskurinn ekki þær lýsingar sem fiskmarkaður setur fram eða seljandi í fjarskiptum gefur upp, á kaupandi rétt á úrbótum. Þær geta falist í því að verð eða magn sé leiðrétt eða ef vanefndir eru verulegar, getur kaupandi skilað fiskinum.

    Kaupandi skal gera athugasemd innan tveggja virkra daga frá uppboði.
    Athugasemd skal gerð í einkaaðgangi á heimasíðu RSF.

    Nauðsynleg gögn skulu fylgja, svo sem vigtarskýrsla, flokkunarskýrsla, mynd eða önnur þau gögn sem staðfesta framkomna athugasemd.

    Meðhöndlun athugasemda á fiskmarkaði:

    Fiskmarkaður er alltaf viðtakandi og úrlausnaraðili þeirra athugasemda er varða þann afla er hann selur.

    Athugasemd skal svara innan tveggja virkra daga frá móttöku.
    Svara skal á athugasemdasíðu RSF.
    Athugasemdum er varða rangar upplýsingar í fjarskiptum skal komið á framfæri við seljanda.

    Alltaf skal leitast við að afgreiða athugasemdir sem fyrst og þannig að þær rýri ekki gæði þess fiskjar sem um ræðir.

    Ábyrgð kaupanda og flutningsaðila:

    Um leið og boð er slegið kaupanda þá er kaupandi eigandi boðsins og ræður alfarið um og ber allan kostnað af meðhöndlun svo sem slægingu, auka ísun, og flutningi.

    Flutningsaðili, sem kaupandi hefur viðskiptsamband við, skal alltaf kvitta fyrir móttöku á fiskmarkaði. Ber hann ábyrgð á því sem hann hefur móttekið.

    Almennt:

    Viðskipti á fiskmörkuðum í dag eru þess eðlis að alltaf er eitthvað um að víkja þurfi út frá því sem fram kemur á stæðulista, þar er átt við sölur í fjarskiptum. Mikilvægt er að fiskmarkaðir staðfesti að sá afli sem seldur er í fjarskiptum standist uppgefnar upplýsingar.

    Ef markaður verður var við að uppgefnar upplýsingar standist ekki skal kaupanda gert viðvart og honum gefið val um hvort hann vill halda kaupum á viðkomandi afla.

    Ætíð skal leitast við að gefa upp allt það sem kann að hafa áhrif á mat kaupanda á því sem í boði er. Í fæstum tilfellum hefur hann kost á að skoða það sem er í boði og þarf því alfarið að treysta þeim upplýsingum sem seljandi og fiskmarkaður gefa upp.

    Starfsfólk fiskmarkaða hefur engin tök á að kanna flakagæði fersks fisks sem boðin er upp á fiskmarkaði. Leiðréttingar verða almennt ekki gerðar vegna flakagæða sem ekki koma í ljós við ytra skynmat.

    Fiskmörkuðum er ekki heimilt að vigta fisk með yfirvigt, kaupendur verða að gera ráð fyrir því við kaup að ferskur fiskur léttist (drip) frá fyrstu vigtun þar til hann berst kaupanda, oft eftir langan flutning.

    Ef gæðakerfi einstakra fiskmarkað kveða á um ítarlegri reglur við athugasemdum þá gilda þær.

    Kaupendur skulu ætíð kynna sér vel uppboðslýsingu (stæðulista).