Skip to main content
RSF

Byrjunarverð í uppboðinu

Hvernig er það ákveðið?

Þegar uppboðskerfið ákveður byrjunarverðið í uppboðinu skoðar það hverja stæðu fyrir sig og athugar hvaða fisktegund er verið að selja, ástand (sl/ósl), aldur, stærð og magn.

Kerfið skoðar verðið á sömu tegund, ástandi, aldri og stærð tvo síðustu daga sem það var selt og notar hæsta verðið. Bætir við það upphæð sem ákveðin er í forsendum hverrar fisktegundar. Þetta byrjunarverð getur síðan breyst innan dagsins þegar sama samsetning er seld aftur ef magnið er nægilegt.

Marktækt magn er einnig ákveðið í forsendum hverrar fisktegundar.

Þessar forsendur hafa þróast í þau 20 ár sem uppboðið á netinu hefur verið í notkun. Við viljum að uppboðið gangi sem hraðast og best fyrir sig. Við viljum alls ekki byrja of lágt en heldur ekki of hátt svo uppboðið telji ekki of lengi að óþörfu.

Dæmi:

Hæsta verð á samsetningu í 2 síðustu skipti: 300 kr.
Upphæð sem bæta á við skv. forsendum: 70 kr.
Byrjunarverð: 370 kr (300+70).


Byrjunarverðið hækkar ef einhver stæða í uppboðinu fer á hærra verði en áður.

Stæða í samsetningu fer á: 330 kr.
Þá breytist byrjunarverðið á samsetningunni í: 400 kr (330 + 70).


Ef byrjunarverðið hækkar á meðan á uppboðinu stendur notar kerfið það áfram og það breytist ekki nema verðið hækki meira. Byrjunverðið lækkar ekki nema fyrsta stæðan fari á lægra verði en upphaflega viðmiðunarverðið.

Byrjunarverð: 370 kr (300+70)
Fyrsta stæða í samsetningu fer á: 290 kr.
Þá breytist byrjunarverðið á samsetningunni í: 360 kr (290 + 70).


Byrjunarverðið í sama uppboði getur síðan hækkað aftur ef verðið hækkar á þessari samsetningu.


Síðan þegar búið er að bjóða upp allar stæður með þessari samsetningu þá geymir kerfið hæsta verð dagsins ásamt verðinu í uppboðinu þar á undan. Uppboðshaldari skoðar alltaf fyrir hvert uppboð byrjunarverðin á öllum samsetningum og athugar hvort þau séu í lagi því stundum verður til verð sem er út úr kortinu þ.s. samsetningin er sjaldgæf og langt síðan selt var á viðmiðunarverði.

Vonum að þetta sé skýrt og upplýsi viðskiptamenn markaðanna um hvernig byrjunarverðið er fundið. Þetta er ekki óbrigðult því sveiflur geta verið töluverðar milli daga í mörgum fisktegundum, en forsendurnar hafa, eins og áður sagði, verið þróaðar í nokkuð mörg ár og gengið svo til áfallalaust.