Skip to main content
RSF

Fréttatilkynning

Skrifað Mánudaginn 11. júní 2012, kl. 12:19

Athugasemd vegna frumvarps um stjórn fiskveiða

Íslenskir fiskmarkaðir hafa verið leiðandi afl í frjálsri verðmyndun á fiski og stuðlað að verulegri verðmætaukningu. Það verð sem þar myndast er notað sem grunnur til útreiknings uppgjörs hjá fjölda aðila tengdum sjávarútvegi.

Undirrituðum finnst í hæsta máta óeðlilegt að almennt lætur frumvarpið sig ekkert varða starfsemi íslenskra fiskmarkaða í ljósi umfangs þeirra. Á árinu 2011 voru seld 91 þúsund tonn af bolfiski í gegnum íslenska fiskmarkaði fyrir rúma 26 milljarða króna. Fiskmarkaðirnir eru 14 fyrirtæki á tæplega 30 stöðum í kringum landið. Hjá þeim starfa vel á annað hundrað starfsmenn og þjónustufyrirtæki við starfsemi þeirra eru mýmörg.

Með pottum og byggðakvóta, þar sem fiski er vísað fram hjá eðlilegri verðmyndun, er vegið að starfssemi fiskmarkaðanna.

Skamkvæmt fjölmörgum úttektum og álitsgerðum um frumvörpin kemur fram að þau muni hafa hvað neikvæðust áhrif á tiltekin útgerðarflokk þ.e. minni og meðalstórar útgerðir sem ekki eiga beina aðild að fiskvinnslu. Þessar útgerðir eru og hafa verið þau fyrirtæki sem hafa lagt til drjúgan hluta þess afla sem seldur er á íslenskum fiskmörkuðum.

Undirritaðir gera það að tillögu sinni að allur fiskur sem veiddur er af kvóta úthlutuðum til rannsókna, fræðslu, strandveiða, sjóstangveiðimóta og frístundaveiða fari skilyrðislaust til uppboðs á fiskmarkaði.

Mikilvægt er að átak verði gert í samræmingu á vigtun alls sjávarafla m.a. með því að allur afli verði veginn með sama hætti innanlands.

Páll Ingólfsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Íslands hf

Ragnar Kristjánsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja hf

Eyjólfur Þór Guðlaugsson framkvæmdastjóri Reiknistofu fiskmarkaða hf