FMS hf hefur ráðið Einar Guðmundsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins. Hann tekur við starfinu af Ragnari H. Kristjánssyni þann 31. janúar n.k.
Einar er fæddur og uppalinn í Bolungarvík á Vestfjörðum og hefur víðtæka reynslu af sjávarútvegi. Hann kemur til FMS úr starfi framkvæmdastjóra hjá Norðanfiski á Akranesi en þar áður var hann framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Hábrúnar í Hnífsdal. Þar áður starfaði hann sem skipstjóri í áratug og rak útgerð ásamt fjölskyldu sinni í Bolungarvík. Þá er hann útskrifaður viðskiptafræðingur úr Háskólanum á Bifröst. Einar er rúmlega fertugur að aldri og er búsettur í Garðabæ ásamt maka og þremur börnum.
Ragnar H. Kristjánsson lætur af störfum að eigin ósk eftir að hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra FMS í 22 ár, en hann hafði þar áður starfrækt fiskmarkað í Hafnarfirði í átta ár og því verið í fiskmarkaðsumhverfinu síðan 1992. Á sama tíma lætur einnig af störfum Þórður M. Kjartansson, skrifstofustjóri FMS til 22 ára, einnig að eigin ósk. Stjórn FMS hf vill koma á framfæri þakklæti til þeirra beggja fyrir störf sín í þágu félagsins.
Fyrir hönd stjórnar FMS hf,
Pétur Jóhannsson, stjórnarformaður,
Sandgerði, 11. janúar 2023.